Fjölmóðs saga föðurbetrungs ber framan af yfirbragð íslendingasögu.
Morgunblaðið, 4. des. 1996, Anna G. Ólafsdóttir
Sagan hefst á hinu hefðbundna hefndarmynstri. Húskarl föður Fjölmóðs drepur þræl fjölkunnugrar nágrannakonu. Eftir að hafa farið fram á bætur án árangurs hótar nágrannakonan eftirmálum að morðinu. Ekki velkist því móðir Fjölmóðs í vafa um hver veldur því að skip föður hans ferst með manni og mús skömmu síðar. Hún sendir vonbiðil sinn til höfuðs kerlingar en sá á ekki afturkvæmt. Er nú svo komið að hún sér ekki annan kost en að egna Fjölmóð til föðurhefnda. Hann hefur hins vegar ekki verið í miklum metum á heimilinu enda liggur hann daglangt í öskustó og er kolbítur kallaður.
Skemmst er hins vegar frá því að segja að Fjölmóður kastar af sér kolbítshamnum og kemur tveimur afturgöngum fyrir kattarnef áður en hann kemst að því að kerling hefur ekki valdið dauða föður hans. Hann vingast við kerlingu og hún heitir því að koma honum til hjálpar í nauð. Sú aðstoð á svo eftir að skipta sköpum í utanför Fjölmóðs.
Hér verða nokkur skil í sögunni því Fjölmóður ferðast ekki aðeins til fjarlægra landa heldur er óhætt að segja að ferðalagið nái til ystu marka mannlegs ímyndunarafls. Frásögnin verður æsispennandi og minnir um margt á fornaldarsögur Norðurlanda. Ævintýrið tekur við og ofurmannleg hetja sigrast jafnt á jötnum og forynjum sem mönnum.
Aðalpersóna sögunnar er dreginn fáum en skýrum dráttum eins og gerist og gengur í fornsögunum. Fjölmóður er hin klassíska íslenska fornhetja. Fyrst og fremst er hann sterkur og þrautseigur. Hann er úrræðagóður og síðast en ekki síst drenglyndur eins og kappar fleiri.
Eins og landsmenn þekkja er Kristinn R. Ólafsson afburða íslenskumaður og óhætt er að segja að hann hefur afar gott vald á fornlegu orðfæri sögunnar. Framan af sver stíllinn sig í ætt við stíl íslendingasagnanna eða hver kannst ekki við mannlýsingar á borð við þessa. „Hann var glæsimenni á velli, fagurhærður og ljós á hár, vopnfær og vígalegur en óð ei í viti.“ (bls. 17). Á stundum kveður hins vegar við ljóðrænni tón: „Reyk lagði upp af bæ og blandaðist dalalæðu sem flatmagaði á stuðlabergi og hengdi loðnar loppur fram af brúnum.“ (bls. 18). Þegar á líður verður mælskan meira áberandi enda stórkostlegri atburðir að fara fram. Orðaforðinn er fjölbreyttur og koma orðskýringar neðst á hverri blaðsíðu sér afar vel fyrir lesendur. Ekki verður heldur skilið við þennan hluta öðruvísi en að taka fram að Kristinn lætur sig ekki muna um að yrkja eina dróttkvæða vísu í sögunni – geri aðrir betur!
Gaman verður að vita hvernig Fjölmóður fellur í kramið hjá tölvukynslóðinni og ekki ólíklegt að ungmenni vanari léttmeti þyki textinn erfiður og gefist hreinlega upp. Fyrir hina er sagan eflaust áhugaverð og spennandi lesning. Á bókarkápu er minnt á að sagan er ekki aðeins fyrir börn og unglinga því fullorðnir geti notið hennar. Undir þau orð er tekið hér. Einna helst má finna að því að frásögnin fer helst til mikið út um víðan völl. Sagan hefði getað orðið hnitmiðaðri og um leið áhrifameiri ef ekki væri jafn langt gengið. Að dómi undirritaðrar er t.a.m. heldur ódýr lausn að halda því fram að konurnar í lífi Fjölmóðs hafi í raun allar verið sú eina og sama.
Allur frágangur bókarinnar er til mikils sóma fyrir Ormstungu.