Strákur settur í þrælabúðir

Um Andarslátt eftir Hertu Müller
Saga þýska minnihlutans í Rúmeníu í hnotskurn

Fréttatíminn, 9. sept. 2011, Páll Baldvin Baldvinsson
★★★★★

Í hittifyrra kom út ný bók eftir nóbelsverðlaunaskáldið Hertu Müller sem vakti þegar mikla athygli og hrós og var strax þýdd á nálæg mál. Herta skrifar á þýsku en ól aldur sinn meðal þýska þjóðarbrotsins í Rúmeníu sem nú er. Foreldrar hennar voru bæði tekin höndum í lok stríðsins þegar Rússar réðust inn í Rúmeníu og borgurum þess lands af þýskum uppruna var sópað upp í lestir og þúsundir fluttar norður á gresjur Úkraínu til nauðungarvinnu. Herta segir í eftirmála þýðingar Bjarna Jónssonar á Atemschaukel, Andarslætti, að fangavist móður hennar um nokkurra ára skeið hafi legið í þagnargildi á heimilinu, rétt eins og reynsla margra þeirra sem vitað var að fóru burt og komust lífs af og sneru heim. Hún hafi lengi viljað nálgast þetta viðfangsefni og loks náð tangarhaldi á söguefninu þegar hún kynntist manni sem hafði skráð hjá sér endurminningar úr þrælabúðum Rússa.

Af þessu efni er mögnuð saga komin í læsilegri þýðingu Bjarna. Herta er ekki auðveldur höfundur; Ennislokkur einræðisherrans, sem kom hér út fyrir nokkrum árum, er þó erfiðari í lestri en þessi harmsaga: Saklaus sautján ára strákur er látinn taka saman fötin sín og fer burt úr bænum. Að baki eru ástarfundir með leynd í skemmtigörðum, pabbi, mamma og amma, nágrannar, og við tekur önnur fjölskylda, klæðleysi, hungur og harðræði. Og þegar dvölin er á enda og hann kemst heim er hann enn fangi, nú reynslu sinnar, og mun aldrei samlagast aftur þeirri æsku sem hann yfirgaf.

Andarsláttur er meistaralega skrifuð lýsing á huga sem er víða kominn að því að leysast upp í óra og ofskynjanir, vitund sem er svo hart leikin af grimmd og ekki síst langvinnu hungri. Stíllinn í frásögninni er hversdagslegur og laus við alla tilfinningasemi, nær hreinsaður af tilfinningu víðast hvar en springur svo út í upplifun og innra lífi sem getur snúist í ofboði þráhyggju um hversdagslega hluti. Þannig er langur kafli um illgresi sem fangarnir safna til að drýgja matarskammtana sem eru litlir og halda þeim stöðugt hungruðum. Andarsláttur er máttugt skáldverk en ekki fyrir þá sem sækjast eftir tilfinningaklámi.