Um Aukaverkanir eftir Halldóru Thoroddsen
Morgunblaðið, 22. nóv. 2007, Hrund Ólafsdóttir
Bækur Halldóru Kristínar Thoroddsen, með sínum litlu sögum, sögubrotum og myndum af mannlífinu, virðast sprottnar af lifandi frásögnum sagnamanneskju sem nýtur þess að segja frá hinu skrýtna og kímilega. Það er auðvelt að sjá fyrir sér uppistandara sem mælir í hálfkveðnum vísum og býr sögusögnum form. Eins og segir á bókarkápu ,,… er hárbeitt samfélagsrýni sett fram í þjóðsagna- og ævintýrastíl …“ Þetta á við um suma þættina og oft er það vel gert en einkenni bókarinnar er miklu fremur hugmyndaflæði annálaritarans sem skrásetur sögubrot auk þess að skrá eigin skýringar þegar minnst varir. Markmiðið með þessu virðist vera að birta brotakenndar myndir af mannlífi fyrr og nú undir yfirskini skrásetningarþráhyggju hins skáldaða ritara. Að vissu leyti nær þessi aðferð tilgangi sínum þar sem lesandi er neyddur til þess að botna brotin en heildarmyndin geldur fyrir. Það þýðir ekki að lesa Aukaverkanir sem smásagnasafn eða til þess að reyna að skilja eðli annálaritarans en það reynir lesandi fyrst af gömlum vana.
Fyrstu línur inngangsins að brotunum eru svona:
,, Enginn má sköpum renna… Glundroðinn vellur fram, eðli sínu samkvæmur, storknar fyrir niðurbrot ýmist í apal eður hellu. Fáránlega árátta að reyna að koma böndum…á óhöndlanlega ringulreiðina.“
Ringulreiðin, sem stundum er skemmtileg og stundum of mikil, einkennir efni og byggingu bókarinnar til viðbótar því sem stíllinn er ýmist leikandi léttur eða stirður úr hófi. Dæmi um stirðleikann er í frásögninni af steinunum sem tala. Þar er fjallað um að allur texti mannkynsins lendi á fjarlægri stjörnu. Hugmyndin er fyndin en úrvinnslan langorð og stirð:
,,Í stöðu þeirri, sem við þeim blasti eftir eyðilegginguna, dugðu illa þær leifar upplýsinga sem enn dönsuðu um fáein heilahveli og blasti nú við úrkynjun og afskræming hins mikla texta ellegar endurfæðing hans á núllpunkti.“ (bls. 20)
Dæmi um ljóðrænan og leikandi stíl sem oft má finna hjá Halldóru er brotið „Tegundausli“; lagt út af þjóðsögunni um stúlkuna sem vissi innst inni að hún væri selur: ,,Stúlkuna sárlangaði að svamla í öldunni köldu með froðu um granir. Velta sér í fjöru, sitja á söltum hleinum með salt í blóði og saltbragð í munni… Sárlega saknaði hún dindils síns, prýði hverrar kæpu.“ (53)
Það er margt vel gert í bók Halldóru og eitt af því er að birta hið brotakennda, óbeislaða flæði hugmynda og brota en í því felst líka galli bókarinnar, því að betur hefði mátt velja og hafna.