Upprifjun böðulsins

Um Endimörk heimsins eftir Sigurjón Magnússon

Morgunblaðið, 5. desember 2012, Einar Falur Ingólfsson
★★★★

Í Endimörkum heimsins, sem hefur undirtitilinn Frásögn hugsjónamanns, segir frá einhverri alræmdustu aftöku tuttugustu aldar; þegar Nikulás Rússakeisari, keisaraynjan, börn þeirra fimm og nánasta aðstoðarfólk var skotið, stungið og barið til bana í kjallarakompu sumarið 1918 í borginni Jekaterinburg, sem síðar var nefnd Sverdlovsk. Þar var að verki aftökusveit bolsévikka en keisarafjölskyldunni hafði verið haldið fanginni þar í Ípatjev-húsinu um hríð en hvítliðar sóttu að borginni og vildu fyrir alla muni frelsa keisarann.

Þetta er stutt saga, nánast smásaga þó líklega sé réttara að flokka hana sem nóvellu, og fljótlesin. En hún er snörp, vel skrifuð og þessi örlagasaga grípur lesandann. Þar skiptir frásgnarhátturinn öllu máli. Sagan er einræða eins mannsins úr aftökusveitinni, Péturs Jermakovs, þar sem hann fylgir háttsettum gestum um Ípatjev-húsið 21 ári eftir morðin.

Jermakov er siðlaus hrotti, og er stoltur af þátttöku sinni í byltingunni: „Hugsjónir virtust ef til vill fallegar þegar skáldin hjöluðu um þær en það segði ekki neitt. Skáldin vissu ekkert í sinn haus. Þegar kæmi að framkvæmdinni væri öll fegurð á bak og burt því eitilharðir hugsjónamenn mættu ekkert víla fyrir sér. Þá reyndist sá grimmasti vera mesti hugsjónamaðurinn. Og þannig væri ég. Alltaf sá grimmasti,“ segir Jermakov í upphafinni ánægju yfir eigin hrottaskap.

Og þetta er grimm frásögn, byggð á þeim heimildum um síðustu daga Romanov-fjölskyldunnar sem höfundurinn hafði aðgang að. Lesandinn fylgir áheyrendum böðulsins um húsið, hlýðir á lýsingar þessa hefndaróða manns á fjölskyldunni, vörðunum, þeim grimmu og þeim veiklunduðu. Allir fá sínar einkunnir frá sögumanni, og smám saman þokast niður í kjallarann nóttina örlagaríku, þegar fjölskyldan var vakin og sagt að koma niður, það ætti að flytja þau í skjól. Þar eru þau hinsvegar tekin af lífi á hinn hrottalegasta hátt, ekkert dregið undan í lýsingunum, og síðan sér sögumaður um að fela hina látnu. „Engin lík til að færa á stall,“ segir morðinginn ánægður með sig.