Von frá Brooklyn
Hope Knútsson rekur æviminningar sínar, allt frá bernskuárunum í New York til efri áranna á Íslandi. Foreldrar hennar voru gyðingar í bandarískri millistétt. Forfeður í báðar ættir komu frá Austur-Evrópu. Móðir hennar var barnakennari og faðir hennar rak litla prentsmiðju.
Eftir að Hope hefur greint frá ætt sinni og uppruna, bernsku, uppvexti og námsárum víkur sögunni til Íslands þar sem hún sest að 1974 ásamt manni sínum, Einari Knútssyni, og þriggja mánaða gömlum syni þeirra. Ísland reyndist framandi: „… vinur minn … sagði eitt sinn um alla streituna sem fylgir því að vera innflytjandi á Íslandi að fyrstu tuttugu árin væru erfiðust!“
Á námsárunum hafði Hope lagt stund á sálfræði og iðjuþjálfun. Þrátt fyrir framandleikann í nýja landinu fékk Hope fljótlega starf á Kleppsspítala þar sem hún beitti nýjustu þekkingu í iðjuþjálfun. Lýsing hennar á íslenska geðheilbrigðiskerfinu er athyglisverð – ef ekki átakanleg. Hún mætti litlum skilningi á Kleppi og sagði upp eftir tveggja og hálfs árs starf.
En Hope lét ekki deigan síga. Skömmu áður en hún hætti á Kleppi tók hún þátt í að stofna Iðjuþjálfafélag Íslands 1976 og var kosin fyrsti formaður þess. Því starfi gegndi hún í 22 ár og árið 1981 var hún kjörin formaður Geðhjálpar.
Hope skrifar um vonbrigði sín með geðheilbrigðisþjónustuna á Íslandi og skólakerfið og hvernig ofbeldi í skólum kom henni í opna skjöldu. Eftir margra mánaða rannsóknir samdi hún fyrirlesturinn „Ofbeldi í skólum, orsakir og lausnir“ og sendi afrit til alþingismanna og Vigdísar Finnbogadóttur forseta. Blaðamenn tóku viðtal við hana um efnið en höfðu tilhneigingu til að trúa ekki alveg orðum erlendu konunnar! Vigdís þakkaði Hope skriflega og sagði málefnið brýnt. Hún tók málið upp í næsta nýársávarpi.
Þá greinir Hope frá afskiptum sínum af málefnum innflytjenda og fjölmenningu en á þeim sviðum var hún atkvæðamikil í fimmtán ár.
Sennilega er Hope nú þekktust fyrir að hafa innleitt borgaralega fermingu á Íslandi og átt frumkvæði að stofnun Siðmenntar árið 1990. Hún gerir þessum upphafsárum greinargóð skil og hvernig Siðmennt þróaðist og varð lífsskoðunarfélag
Í lokin segir hún frá báðum börnum sínum, Tryggva og Kötlu, og hvernig erfið veikindi hafa sett mark sitt á þau. Lokaorð bókarinnar eru:
„Á þessum fimm áratugum hef ég verið ánægð með að búa í landi sem ógnar engu öðru landi. Á Íslandi er nóg af vandamálum. En það eru engin fullkomin samfélög til vegna þess að fullkomið fólk er ekki til. Í hvert sinn sem stjórnmálamaður hér talar um að útlendingar séu byrði og stórt vandamál fyrir Ísland, þá nístir það hjarta mitt því ég hef helgað mig mestan hluta ævinnar því að gera Ísland að betra samfélagi. Mér finnst ég ekkert sérstaklega bandarísk eða íslensk þótt ég sé hvort tveggja. Ég sé mig fyrst og fremst sem borgara jarðarinnar.“
Í bókinni er fjöldi ljósmynda, bæði svarthvítar og í lit.