Hope Knútsson

Hope (f. 1943) ólst upp í Brooklyn, New York. Hún lauk bachelor-gráðu í sálfræði og heimspeki frá Brooklyn College/City University of N.Y. og mastersgráðu í iðjuþjálfun frá Columbia University.

Hún fluttist til Íslands árið 1974 og var iðjuþjálfi á Kleppsspítalanum í rúm tvö ár. Hope var einn af stofnendum Iðjuþjálfafélags Íslands, formaður þess í 22 ár, fulltrúi Íslands hjá Heimssambandi iðjuþjálfa í 26 ár og fréttastjóri fagtímarits Heimssambands iðjuþjálfa í 15 ár. Á áttunda og níunda áratugnum kenndi hún við ýmsar námsbrautir á heilbrigðissviði og var formaður Geðhjálpar í 5 ár. Einnig var hún stjórnarmaður í Kynfræðifélagi Íslands og í Samtökum heilbrigðisstétta (SHS).

Hope rannsakaði ofbeldi í skólum 1984, hélt fjölda fyrirlestra um sama efni og skipulagði tvær ráðstefnur á vegum SHS um ofbeldi. Hope var stofnandi og formaður Félags nýrra Íslendinga í fimm ár. Hún var einn af stofnendum fyrsta Fjölmenningarráðs og formaður þess í fimm ár.

Hún hefur skrifað fjölda greina í blöð um menningaráfall, blönduð hjónabönd, fjölmenningarlegt samfélag, geðheilbrigðismál, ofbeldi, neytendamál og húmanisma.

Hope átti frumkvæði að borgaralegri fermingu 1989 sem leiddi til stofnunar Siðmenntar 1990. Þar var hún verkefnastjóri í 31 ár og formaður í 19 ár.

Æviminningar hennar, Von frá Brooklyn, eru væntanlegar vorið 2025.