Það er gaman að lesa hvernig Kristján B, Jónasson segir kost og löst á Hermann Hesse og verkum hans á facebook-síðu sinni 10. nóv. 2024. Hann klykkir út með:
„Ég vona að þessi þýðing rati til sinna. Að allar þessar þúsundir sem eru að leita að merkingu og tilgangi og vilja sjá líf sitt sem merkingarbæra heild megi finna þessa bók og lesa sér til uppbyggingar. Textinn er á fallegri, raunar glæsilegri, íslensku og þetta er bók sem sannarlega skilur eitthvað eftir sig.“
Hér er heildartextinn:
Útbreiðsla hugmynda úr hindúisma og búddisma á Vesturlöndum síðustu 120 árin eða svo mætti kenna við siðaskipti. Það er svo komið að hugmyndir búddisma um núið (að lifa í núinu), „karma“ eða þörfina á að „eyða egóinu“ eru hluti af lífssýn flestra, hugtök sem fólk hefur á hraðbergi daginn út og inn. Vart líður sá dagur að fólk á ýsmum stigum ævigöngunnar birtist ekki í viðtölum í vefmiðlum eða í hlaðvörpum til að tjá okkur þessar ævagömlu hugmyndir sem fersk og ný tíðindi. Hugmyndaheimur okkar er gegnsýrður af búddískum kenningum.
Ein mikilvægasta varðan á þessari innreiðarferð hugmynda frá Indlandsskaganum til Evrópu og Norður-Ameríku er sagan Siddharta eftir þýska rithöfuninn Hermann Hesse. Frá því að hún kom fyrst út árið 1922 hefur hún verið lesin af hundruðum milljóna og er í hópi vinsælustu og mest seldu bóka á þýskri tungu og var ásamt annarri sögu Hesses, Sléttuúlfinum (Der Steppenwolf 1927) költbók á hippatímanum og lengi þar eftir og er enn lesin til andlegrar uppörvunar af þeim sem leita að merkingu í ruglingslegum samtímanum.
Það eru því menningarsöguleg tíðindi að þessi lykilbók 20. aldar skuli nú loksins koma út á íslenskri tungu. Það er Haraldur Ólafsson mannfræðingur sem er þýðandi bókarinnar og útgefandi er Ormstunga. Í stuttum eftirmála lýsir Haraldur því að hann hafi þýtt bókina á námsárum sínum í Strassborg í upphafi 6. áratugarins til að æfa sig í þýsku og síðan dustað rykið af þýðingunni. Það er líklegast gæfa þessarar útgáfu að einhver sem hefur sígildan málskilning á íslenskri tungu heldur hér á penna, sagan fær fyrir vikið þann nauðsynlega helgiblæ sem hún á að hafa og augljóst að sá sem þýðir hefur innsýn í hindúisma og búddisma. Þetta er feykigóður texti og raunar unun að lesa hann – að minnsta kosti í smáum skömmtum.
Í smáum skömmtum segi ég því ég hef fyrir mína parta alltaf átt mjög erfitt með að njóta verka Hermanns Hesse sökum þeirrar merkikertislegu og skopskynsvöntunarlegu sjálfssýnar sem andar af sögumönnum í þessum annars afar vinsælu verkum. Ég hef oft hitt fólk í Þýskalandi sem hefur sagt mér að sögur Hesses hafi breytt lífi þess. Skáldsögur eins og Sléttuúlfurinn fyrrnefndur eða þá þessi bók, Siddharta, sem og Bildungsrómaninn Demian (1919) sem unglingar lesa víst enn í dag til að skilja hverjir þeir eru (en þá eingöngu karlkyns unglingar, því konur eru ekki til í verkum Hesses nema sem óljósar bakgrunnsverur – Hesse var haldinn listrænni blindu á konur og hið kvenlega).
Siddharta segir líkt og Demian og Sléttuúlfurinn (og raunar enn ein saga Hesses, sem er minna þekkt, Narziss und Goldmund) sögu af andlegri vegferð. Siddharta er brahmíni sem verður að meinlætamanni í hindúískri hefð – lærir fakíralistir – en hittir svo Búdda sjálfan, enda gerist sagan á lífstíð hans á 6. öld fyrir Krist. Siddharta ákveður hins vegar að fylgja ekki Búdda, enda gagnrýninn á þá innri mótsögn búddismans að rannsókn og þekking þýði að maður taki að rækta egóið /Sjálfið í staðinn fyrir að eyða því. Í staðinn lærir Siddharta veraldlega vegu: lærir að græða fé, starfa í samfélaginu og síðan vegi kynlífs og ástar í miklum leikfimiæfingum með þokkadísinni Kamölu (já, hún heitir Kamala). En allt þetta er „sókn eftir vindi“ og eini raunverulegi kennari hans verður á endanum „Fljótið“ og vinur hans ferjumaðurinn sem aldrei dæmir og aldrei reiðist og allaf hlustar á allt og skilur. Bestu lýsingar sem til eru á virkri hlustun er hér að finna.
Ef maður er með þessa bók við höndina og les stutta búta úr henni nær maður að njóta bókarinnar, að leyfa andlegri hlið hennar að virka á sig. Sem saga er bókin hálfgert vandræðagrey því fagurfræðileg forsenda nútímaskáldsögunnar er víðs fjarri, írónían, ekki aðeins sem írónía í merkingunni kaldhæðni, heldur sem ósamrýmanleiki tákns og veruleika. Þéttleikinn sem textar fyrri alda virðast svo oft hafa, að fólkið sem samdi þá hafi talið þá vera veruleika í sjálfu sér – og ekki litið á þá sem ólánlega afurð skorts á heimilsfesti andans – er einfaldlega ekki nógu ekta – og þetta var nokkuð sem olli Hesse sjálfum sífelldum heilabrotum. Allt frá fyrstu skáldsögu hans, Peter Camenzind, var hann að glíma við það sem hann áleit sjúkdómseinkenni nútímans (hann kallaði það Lebenskrankheit) og vildi tefla fram heildstæðri og heildrænni heimssýn þar sem hin andlega og líkamlega vera mannsins væru í samhljómi. Sjálfur var hann mikill aðdáandi ýmissa stefna í heilbrigðis- og lífsstílsmálum, allt frá sólböðum, til nektarbaða, grænmetisáts og jógaæfinga. Honum reyndist þó um megn að eiga í uppbyggilegu sambandi við eiginkonur sínar og fylgikonur sem hann fór svívirðilega illa með – enda held ég að laumuhomminn í honum sé augljós öllum lesendum verka hans.
Það er hægt að grípa nánast hvar sem er niður í Siddharta, alltaf lendir maður á tilvitununum sem stakar geta öllum nýst sem eru með námskeið í verkefnastjórnun, leiðtogafærni, markþjálfun eða nánast bara hverju sem er. Þetta eru textar sem lýsa manneskju í miklum umbrotum, en sem fær líka mikla umbun og lýsa æviferðinni sem ævintýri í átt til sífellt meiri þroska. Grípum niður þegar Siddharta liggur við Fljótið og er gjörsamlega búinn á því:
„Þannig var þá komið fyrir honum. Svo var hann heillum horfinn, svo villtur og viti sviptur að hann hafði þráð dauðann, að þessi ósk, þessi barnalega ósk hafði gagntekið hann: að finna frið með því að afmá líkamann! Það sem kvöl undangengis tíma, afhjúpun og örvænting hafði ekki fengið áorkað, það gerðist á þessu andartaki er Om fylti vitund hans: hann skildi eymd sína og sturlun.
„Om!“ sagði hann við sjálfan sig. „Om!“ Og hann vissi um Brahmann, vissi að lífi varð ekki eytt og vissi aftur allt um hið guðlega sem hann hafði gleymt.“ (bls. 79)
Ég vona að þessi þýðing rati til sinna. Að allar þessar þúsundir sem eru að leita að merkingu og tilgangi og vilja sjá líf sitt sem merkingarbæra heild megi finna þessa bók og lesa sér til uppbyggingar. Textinn er á fallegri, raunar glæsilegri, íslensku og þetta er bók sem sannarlega skilur eitthvað eftir sig.